lög Meistarafélag hársnyrta 

 Samþykkt á aðalfundi 30. maí 2017. 


Lög Meistarafélags hársnyrta. 

  1. Heiti og heimili. 

  2. Tilgangur. 

  3. Aðild og skilyrði aðila. 

  4. Umsókn um aðild. 

  5. Úrsögn eða brottvikning. 

  6. Aðalfundur. 

  7. Félagsfundur. 

  8. Stjórn og stjórnarkjör. 

  9. Verkefni stjórnar. 

  10. Ársreikningur. 

  11. Félagsgjöld. 

  12. Heiðranir. 

  13. Lagabreytingar. 

  14. Félagsslit. 

  15. Gildistaka. 

1. HEITI OG HEIMILI. 

Heiti Félagsins er Félag hársnyrtimeistara og sveina (FHMS). Heimili þess og varnar þing er í Reykjavík. Félagið er landsfélag.

Félagið er aðili að Nordic Hair and beauty assoiaton NHBA sem er norðurlandasamband greinarinnar. 

Félagið er einnig aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd þeirra atvinnurekenda innan félagsins sem uppfylla skilyrði þessara samtaka um aðild. 

2. TILGANGUR. 

Tilgangur félagsins er að:

  • Efla samvinnu og samheldni fagfólks í hársnyrtiiðn

  • Eiga samstarf við hliðstæð samtök erlendis.

  • Leggja áherslu á að menntun starfsfólks og stjórnenda í greininni sé eins góð og kostur er og að hún stuðli að eðlilegri þróun og falli að þörfum greinarinnar.

  • Stuðla að félagslegum og faglegum framförum í greininni með upplýsinga- og fræðslustarfsemi, sýningum og keppni. 

  • Vera málsvari félagsmanna út á við og varðandi mál sem varða hagsmuni þeirra og opnbera umfjöllun.

3. AÐILD OG SKILYRÐI AÐILDAR. 

Aðilar í Félagi hársnyrtimeistara og sveina skulu hafa lokið sveinsprófi í hársnyrtiiðn.

Nemar geta þó verið áheyrnafulltrúar en fá ekki atkvæði á fundum félagsins.

4. UMSÓKN UM AÐILD. 

Inntökubeiðni skal vera skrifleg og fara í gegnum skráningarsíðu á heimasíðu félagsins. Með inntökubeiðni skulu fylgja afrti gagna sem sýna að umsækjandi fullnægi skilyrðum 3. gr.

Samhliða inngöngu í FHMS gerist nýr félagsmaður, sem jafnframt er stofueigandi, aðili að Samtökum iðnaðarins og eftir atvikum Samtökum atvinnulífsins fyrir sína hönd og fyrirtækis síns. Þar með skuldbindur hann sig til að lúta þeim reglum og skyldum sem fylgir aðild að þessum félögum.

5. ÚRSÖGN EÐA BROTTVIKNING. 

Úrsögn úr FHMS skal vera skrifleg og senda stjórn. Úrsögn skal miðast við áramót og tilkynnt með minnst sex mánaða fyrirvara, enda sé viðkomadi skuldlaus við Félag hársnyrta. Hver félagsmaður getur sagt sig úr félaginu, með sex mánaða fyrirvara, enda sendi hann skriflega úrsögn og tilgreini þar ástæður úrsagnar sinnar og skal viðkomandi vera skuldlaus.

Brjóti félagi lög FHMS, reglur eða fundarsamþykktir er stjórn Félags hársnyrta heimilt að víkja viðkomandi úr félaginu. Áfrýja má brottvikningu til aðalfundar.

6. AÐALFUNDUR. 

Aðalfund skal halda eigi síðar en 30. apríl ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með bréfi, símbréfi, tölvupósti eða á annan sannanlegan og tryggilegan hátt. 

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum FHMS. 

Aðalfundur er lögmætur ef löglega hefur verið til hans boðið án tillits til fundarsóknar nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum. 

Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg ef 1/5 hluti fundarmanna krefst þess. 

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í ölllum málum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum. 

Á dagskrá aðalfundar skulu þessi mál tekin fyrir: 

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. 

  2. Gjaldkeri leggur fram ársreikninga FHMS fyrir liðið almanaksár. 

  3. Lagabreytingar enda séu þær kynnar í fundarboði. 

  4. Kosning í stjórn. 

  5. Kjörinn skoðunarmaður reikninga. 

  6. Ákvörðun félagsgjalda 

  7. Önnur mál. 

Atkvæðisrétt hafa aðeins skuldlausir félagsmenn og hefur hver félagi eitt atkvæði. Ekki má fela öðrum atkvæði sitt nema með skriflegu umboði sem afhendist stjórn félagsins. 

7. FÉLAGSFUNDUR. 

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald milli aðalfunda í öllum málefnum FHMS innan þeirra marka sem lög þessi setja. 

Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað án tillits til fundarsóknar. 

Félagsfundi skal halda þegar stjórn FHMS þykir þurfa, eða ef félagsmenn sem fara með minnst 1/5 hluta atkvæða óska þess. Ósk um félagsfund skal senda stjórn FHMS og ber henni þá að boða til félagsfundar með tryggilegum hætti án tafar, en þó með minnst þriggja daga fyrirvara, nema sérstaklega standi á. 

Í fundarboði skal stuttlega getið þeirra mála sem taka skal fyrir á fundinum. 

Hverjum fundi stýrir formaður eða kjörinn fundarstjóri. Hann skal kynna sér í fundarbyrjun hvort löglega er til fundarins boðað og úrskurða þar um. Hann velur fundarritara úr hópi fundarmanna. Fundarsjóri skal stjórna atkvæðagreiðslu og annarri málsmeðferð. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg ef 1/5 hluti atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess. 

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum öðrum en þeim sem lög þessi kveða á um. 

Í fundargerðum skulu koma fram allar samþykktir félagsfunda og stutt skýrsla um annað það sem gerist á félagsfundinum. Fundargerð skal undirrituð af fundarstjóra og fundarritara og telst hún að þessum formsatriðum uppfylltum fullt sönnunargagn þess sem fram fór á fundinum. 

8. STJÓRN OG STJÓRNARKJÖR 

Stjórn FHMS skipa 5 menn, formaður, vara formaður, gjaldkeri, ritari og einn meðstjórnendur. 

Formaður, gjaldkeri og ritari eru kosnir til tveggja ára í senn og varaformaður og meðstjórnandi til eins árs. Kjörgengir í stjórn eru einungis meistarar og sveinar enda liggi fyrir samþykki þeirra á aðalfundi að taka sæti í stjórn félagsins. 

9. VERKEFNI STJÓRNAR 

Formaður og ritari fara með yfirstjórn FHMS milli félagsfunda. 

Stjórnin heldur fundi þegar formanni þykir við þurfa, en honum er þó skylt að boða til fundar ef tveir meðstjórnendur óska þess. Stjórnarfundi skal boða með þeim fyrirvara sem formanni þykir hæfilegur og með tryggilegum hætti. 

Tillaga verði svohljóðandi ef innganga í SI verði samþykkt:

Formaður stjórnar eða varaformaður í forföllum hans, boðar til stjórnarfundar í samráði við tengilið félagsins hjá Samtökum iðnaðarins svo oft sem þurfa þykir.

Stjórnarfundur er lögmætur ef hann sækir auk formanns minnst tveir stjórnarmeðlimir, eða þrír stjórnarmeðlimir án formanns. 

Ákvarðanir stjórnarfunda skal skrá í fundargerðir og skulu þær undirritaðar. 

Alla samninga og skuldbindingar sem stjórnin gerir fyrir hönd félagsins samkvæmt lögum þessum og ákvörðunum félagsfunda eru bindandi fyrir alla félaga, þó málefnið hafi ekki verið undir þá borið. Allar samþykktir félagsfunda skal kynna félagsmönnum svo fljótt sem verða má. Samningar sem skuldbinda félaga eða fela í sér meiriháttar ráðstöfun eigna þess skulu undirritaðar af formanni og tveim öðrum stjórnarmönnum. 

10. ÁRSREIKNINGUR 

Fyrir lok mars ár hvert skal gjaldkeri FHMS hafa lokið við gerð ársreiknings fyrir liðið almanaksár og sent hann skoðunarmanns félagsins, en hann skal hafa sent stjórninni reikninginn með athugasemdum sínum innan fjórtán daga. 

11. FÉLAGSGJÖLD. 

Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert. Félagsgjöld skulu innheimt allt að átta sinnum á ári. 

Stjórn FHMS er heimilt að semja við þriðja aðila um rekstrarumsjón og skrifstofuhald. 

Félagar sem náð hafa 67 ára aldri og hættir eru í rekstri greiða ekki félagsgjöld.

12. HEIÐRANIR. 

Aðalfundur tekur ákvörðun um kjör heiðursfélaga FHMS, að fenginni tilllögu stjórnar fyrir framúrskarandi störf í þágu greinarinnar. Aðrar viðurkenningar ákveður stjórn FHMS. 

13. LAGABREYTINGAR. 

Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á lögmætum aðalfundi, enda hafi þess verið getið á fundarboði og skal meginefni breytinganna kynnt í fundarboði. Til samþykktar lagabreytingar þarf minnst 2/3 hluta allra greiddra atkvæða á fundinum. Tillögur um lagabreytingar sem lagðar eru fyrir aðalfundi en hafa ekki verið kynntar í fundarboði þurfa samþykki 4/5 hluta allra greiddra atkvæða á fundum til að öðlast lagagildi. 

14. FÉLAGSSLIT. 

Tillögu um slit á FHMS eða samruni við önnur samtök eða félög skal fara með á sama hátt og lagabreytingar, að örðu leyti en því að ¾ hluta atkvæða þarf til að samþykkja slit á félaginu eða samruna þess við önnur félög. Slíka tillögu má ekki taka til afgreiðslu nema hún hafi verið kynnt í fundarboði. 

Fundur sem samþykkir slit Félags hársnyrtimeistara og sveina eða samruna þeirra við önnur samtök á löglegan hátt skal einnig ákveða hvernig ráðstafa skal eignum þeirra og greiðslu skulda. 

15. GILDISTAKA. 

Lög þessi taka gildi við samþykki á aðalfundi. 

Samþykkt á aðalfundi 14. febrúar 2024